Eignir og skuldir kynslóða

Í fyrri færslu var fjallað um aldurspíramíta og aldurssamsetning Íslendinga sýnd yfir tímabilið frá 1841 til 2011. Í kjölfarið vaknaði hugmynd hjá höfundi um að tákna eignir og skuldir einstaklinga eftir aldursbilum með áþekkum hætti. Þótt það tengist tryggingastærðfræði ekki með beinum hætti þá á þetta vel við. Enda er einnig markmið með þessu bloggi að túlka gögn með áhugaverðum hætti þegar því verður við komið.

Eignir og skuldir samtals 2011. Heimild: RSK.

Að sýna eignir og skuldir á þennan hátt kann sér í lagi að vera viðeigandi í ljósi umræðu, sem spratt af nýlegri blaðagrein fyrrverandi ráðherra. Í greininni vændi hann fólk á aldrinum 30 til 45 ára sem byggi á höfuðborgarsvæðinu um að hugsa helst um eigin hag en lítið annars.  Aðrir voru til að taka upp hanskann fyrir kynslóðina, sem ráðherrann fyrrverandi kallaði sjálfhverfa, og benda á breytingar á nettó eignarstöðu þessa hóps í kjölfar efnahagshruns. Það er til lítils að rifja upp í smáatriðum hver sagði hvað í umræðunni sem upphófst í kjölfarið.

Fasteignir og fasteignaskuldir 2011. Heimild: RSK.

Hreyfimyndin hér fyrir neðan sýnir heildareignir og heildarskuldir einstaklinga og sambúðaraðila á hverju fimm ára aldursbili frá 1994 til 2011. Myndin til hægri sýnir stöðuna á síðasta ári. Byggt er á upplýsingum úr skattframtölum, sem finna má á vef Ríkisskattstjóra. Kynslóðin, sem styrinn stendur um, er táknuð með dekkri lit, lesendum til glöggvunar. Raunar er aldursbilið hér aðeins víðara þar eð flokkun Ríkisskattstjóra eftir fæðingarári miðast við heilan og hálfan áratug. Í gögnunum frá skattyfirvöldum eru samskattaðir taldir með því ári, sem eldri einstaklingurinn tilheyrir.

Fjárhæðir eru í milljörðum króna og sýndar á verðlagi hvers árs. Það er óþarfi að flækja framsetninguna með því að reikna öll ár til núvirðis en leyfa heldur áhrifum mikilla nafnverðshækkana á fasteignamarkaði að koma fram.

Ef aðeins eru teknar fasteignir og skuldir vegna fasteigna lítur myndin út eins og sýnt er hér á eftir. Ofar til vinstri má sjá mynd sem sýnir stöðuna í lok árs 2011.

 

2 thoughts on “Eignir og skuldir kynslóða

  1. Pingback: Nettó eignir og skuldir | Hagur

  2. Pingback: Nettó eignir og skuldir | Hagur

Comments are closed.