Tag Archives: Dánartíðni

Af eignum (og skuldum) lífeyrissjóða

Nýtt tölublað Fjármála, vefrits Fjármálaeftirlitsins, er komið út. Þar er að finna grein síðuhöfundar um skuldbindingar lífeyrissjóða og forsendur mats á tryggingafræðilegri stöðu. Eignir lífeyrissjóða eru oftast í forgrunni en skuldbindingarnar rata sjaldnar í fréttir.

„Þótt nýjustu tölur Hagstofu Íslands geti gefið vísbendingar um að dánartíðni hafi lækkað hægar allra síðustu árin en áratugina þar á undan þá er ástæða til að hafa áhyggjur af að lengri lífaldur leiði til að skuldbindingar sjóðanna séu vanmetnar.

Auk forsendna um lífslíkur skipta vextir ekki síður máli við mat á skuldbindingum.“

Jólatölublað Fjármála 2019 má nálgast hér og frétt um útgáfuna hér.

Fjármálaráðuneytið gefur út líftöflur

Dánar- og eftirlifendalíkur

Dánar- og eftirlifendalíkur á vef Félags íslenskra tryggingastærfræðinga.

Á fyrsta starfsdegi nýs ráðherra í síðustu viku birti Fjármála- og efnahagsráðuneytið tilkynningu þess efnis að það hefði fallist á tillögur Félags íslenskra tryggingastærfræðinga (FÍT) um nýjar dánar- og eftirlifendatöflur, einnig oft kallaðar líftöflur (e. lifetables). Nýlega var reglugerð um forsendur tryggingafræðilegrar athugunar breytt en áður gaf FÍT töflurnar út, án aðkomu ráðuneytisins.

Félagið kynnti á sínum tíma drög að breyttri aðferðafræði þar sem það hugðist byggja spá um áframhaldandi lækkun dánartíðni inn í líftöflur sínar. Með því vildi félagið fylgja fordæmi margra nágrannalanda, sem grundvalla tryggingafræðilegar athuganir á áframhaldandi lengingu lífaldurs. Nýju töflur FÍT byggja á reynslu áranna frá 2010 til 2014 að báðum árum meðtöldum en nota ekki framtíðarspá.

Áður hefur verið rakið á hér á þessari síðu að þessar nýju líftöflur FÍT munu hækka eftirlaunaskuldbindingar lífeyrissjóða. Aukningin skuldbindinga mun verða meiri vegna karla, sem saxa aðeins á forskot kvenna m.v. vænta ævilengd. Samkvæmt nýju töflunum geta karlar nú vænst að lifa í 80,1 ár og vænt ævilengd kvenkyns nýbura er 84,0 ár.

Nýjar dánar- og eftirlifendatöflur

Árlega ber lífeyrissjóðum að láta fara fram tryggingafræðilega athugun til þess að leggja mat á hvort jöfnuður sé milli eigna og skuldbindinga. Tryggingafræðileg athugun byggir á almennum tryggingafræðilegum forsendum, m.a. um dánaráhættu og raunvexti.

Fram til þessa hefur Félag íslenskra tryggingastærðfræðinga (FÍT) haft það hlutverk að gefa út dánar- og eftirlifendatöflur samkvæmt ákvæðum reglugerðar 391/1998. Í samræmi við nýgerðar breytingar á reglugerðinni hefur Fjármálaráðuneytið núna það hlutverk að gefa út töflurnar að fenginni ráðgjöf FÍT. Í október gaf FÍT út nýjar dánar- og eftirlifendatöflur sem gert er ráð fyrir að verði notaðar til grundvallar mati á skuldbindingum lífeyrissjóða í næstu trygingafræðilegu athugun á árinu 2017. Félagið byggir mat sitt á gögnum frá Hagstofu Íslands.

Samkvæmt nýútgefnum töflum Félags íslenskra tryggingastærfræðinga hafa lífslíkur beggja kynja aukist en aukningin er hlufallslega meira hjá körlum en konum. Vænt ævilengd karlkyns nýbura jókst um 0,6 ár frá 2011 til 2014 en aukningin var 0,4 ár hjá kvenkyns nýburum. Vænt ævilengd íslenskra karla er nú í fyrsta skipti yfir 80 ár og konur mega vænta þess að lifa í 84 ár. Taflan hér á eftir sýnir samanburð á væntri ævilengd miðað við gömlu og nýju dánar- og eftirlifendatöflur FÍT.

Vænt ævilengd Karlar Konur Þjóðin
við fæðingu m.v. reynslu 2010-2014 80,1 84,0 82,0
við fæðingu m.v. reynslu 2007-2011 79,5 83,6 81,5
við 65 ára aldur m.v. reynslu 2010-2014 18,9 21,1 20,1
við 65 ára aldur m.v. reynslu 2007-2011 18,4 20.8 19,6
við 70 ára aldur m.v. reynslu 2010-2014 14,9 17,0 16,0
við 70 ára aldur m.v. reynslu 2007-2011 14,5 16,7 15,6

Aukningin er að stærstum hluta vegna þess að eldra fólk lifir lengur en áður. Það má glögglega sjá þegar rýnt er í þróunina við 65 og 70 ára aldur.

Karlmenn geta nú vænst þess að lifa í 18,9 ár eftir 65 ára aldur m.v. dánarreynslu áranna 2010-2014. Það er aukning um 0,5 ár frá reynslu áranna 2007-2011. Lífslíkur karla við 70 ára aldur jukust um 0,4 ár á sama tíma. Konur lifa að jafnaði í 21,1 ár eftir 65 ára aldur m.v. reynslu áranna 2010-2014. Það er 0,3 árum en lengur þær gerðu að jafnaði á árunum 2007-2011. Það á bæði við um konur við 65 ára og 70 ára aldur.

Hlutfallsbreyting skuldbindinga

Hlutfallsleg hækkun á virði eftirlaunaskuldbindinga eftir aldri og kyni vegna nýrra á dánar- og eftirlifendataflna. Heimild: Félags íslenskra tryggingastærfræðinga og Hagstofa Íslands. Útreikningar actuary.is.

Samkvæmt þessu aukast skuldbindingar lífeyrissjóða, sem hafa hlutfallslega fleiri karla meðal sjóðfélaga, meira en hjá sjóðum þar sem konur eru fleiri.

Á meðfylgjandi mynd má sjá sjá hlutfallsbreytingu á virði skuldbindinga vegna eftirlauna eftir kyni og aldri. Útreikningarnir miða við að lífeyristökualdur sé 67 ár. Virðisbreytinging yrði ögn minni fyrir bæði kyn ef miðað væri við 65 ára lífeyristökualdur.

Nýjar dánar- og eftirlifendatöflur munu leiða til aukningar á virði skuldbindinga vegna eftirlauna karla um allt að 3,0% en um allt að 1,7% vegna eftirlauna kvenna.

 

 

Actuary.is óskar lesendum farsæls nýs árs!

 

Áhrif nýrra líftaflna á skuldbindingar lífeyrissjóða

Fjármál - vefrit FjármálaeftirlitsinsÍ gær kom út nýtt eintak Fjármála, vefrits Fjármálaeftirlitsins. Meðal efnis að þessu sinni er umfjöllun síðuhöfundar um áhrif nýrra líftaflna á skuldbindingar lífeyrissjóða. Þá er grein um fyrirhugaðar breytingar á löggjöf um vátryggingamarkaði eftir Sigurð Frey Jónatansson, tryggingastærðfræðing. Frétt Fjármálaeftirlitsins um útgáfuna má finna hér.

 

Forði lífeyristryggingar

Hér var fjallað um áhrif lengri lífaldurs á iðgjöld lífeyristrygginga sem duga til þess að standa undir greiðslum til eftirlaunaþega þegar lífeyrisaldri er náð. Í dæminu er miðað við að iðgjöld séu greidd í lífeyrissjóð frá 27 ára aldri til 67 ára aldurs þegar taka lífeyris, sem nemur 76% af launum, hefst. Í fyrri færslu voru bornar saman dánarlíkur sérhvers fimm ára tímabils frá 1970 til 2010 til þess að meta áhrif hækkaðs lífaldurs á iðgjöld. Dæmið er einfaldað og ekki er gert ráð fyrir öðrum bótum úr kerfinu auk þess sem kostnaði er sleppt.

Miðað við dánarlíkur áranna 2006 til 2010 þyrftu karlar að leggja fyrir 10% launa sinna en konur 11,3% til þess að kerfið geti staðið undir greiðslum eins og lagt er upp með. Niðurstöðurnar byggja á dánartíðni karla og kvenna skv. upplýsingum frá Hagstofu Íslands. Gert er ráð fyrir 3,5% raunávöxtun í dæminu.

Forði lífeyristryggingar m.v. inngreiðslur á árunum 27 til 67 ára og útgreiðslur eftir það. Byggt á dánarlíkum 2006-2010.

Forði lífeyristryggingar m.v. inngreiðslur á árunum frá 27 til 67 ára aldri og útgreiðslur eftir það. Byggt á dánarlíkum 2006-2010 skv. Hagstofu Íslands.

Út frá þessum niðurstöðum má svo reikna út forða (reserve), sem þarf að vera til staðar á hverjum tíma svo tryggja megi greiðslur í samræmi við forsendur dæmisins, að því gefnu að einstaklingur nái þeim aldri. Forðinn táknar með öðrum orðum þær eignir, sem byggjast upp og ávaxtast í sjóðnum á meðan greiðslur iðgjalda standa yfir. Eftir að taka lífeyris hefst lækkar forðinn og fer niður í núll frá og með hæsta mögulega lífaldri, sem útreikningarnir gera ráð fyrir.

Myndin til hægri sýnir hvernig forðinn hækkar með veldisvexti frá upphafi greiðslna þar til 67 ára aldri er náð. Fyrir konur þarf forðinn að samsvara ríflega tíföldum árslaunum við 67 ára aldur en tæplega tíföldum árslaunum fyrir karla. Muninn má rekja til hærri lífaldurs kvenna en karla að jafnaði. Það er ögn einföldun að láta 100 ár vera takmarkandi aldur en það breytir lögun ferilsins ekki í meginatriðum.

Hækkun lífeyrisaldurs

Í þessari frétt á mbl.is frá því í síðustu viku er greint í mjög stuttu máli frá hugmynd nefndar um jöfnun lífeyrisréttinda um hækkun lífeyrisaldurs úr 67 ár í 70.  Þá er greint frá því að nefndin sé að skoða hvaða möguleikar séu færir til þess að lífeyrissjóðir geti greitt sem nemur 76% af ævitekjum til þess, sem greiðir í 40 ár í lífeyrissjóð.  Í ljósi þess er áhugavert að skoða þróun lífslíkna Íslendinga síðustu áratugina og hvaða áhrif lengri lífaldur hefur á iðgjaldagreiðslur miðað við óbreyttan lífeyrisaldur.

Þróun lífslíkna karla og kvenna 1971-2010

Þróun lífslíkna karla og kvenna 1971 til 2010. Heimild: Hagstofa Íslands

Myndin hérna til hægri byggir á gögnum frá Hagstofu Íslands og sýnir lífslíkur karla og kvenna á hverju fimm ára tímabili frá 1971 til 2010. Ferlarnir tákna hlutfall eftirlifenda á hverjum aldri (survival function) miðað við þá sem fæddir voru.  Í byrjun er 100% mannfjöldans á lífi en þeim fækkar eftir því sem líður á.  Við 100 ára aldur eru fáir eftirlifendur.

Ljósu ferlarnir svara til fyrstu tímabilanna en  síðari tímabil eru teiknuð með dekkri línunum.

Þessi gögn eru notuð til þess að meta núvirði greiðslna, sem sjóðsfélagi greiðir í lífeyrissjóð, sem og núvirði væntra lífeyrisgreiðslna.  Þær upplýsingar eru notaðar til þess að ákvarða iðgjald lífeyristryggingarinnar sem hlutfall af launum.  Eins og lýst er í fréttinni er gengið út frá því að sjóðsfélagar greiði iðgjöld frá 27 ára aldri til 67 ára aldurs eða á meðan þeir er á lífi.  Þeir sem ná að hefja töku lífeyris þiggja 76% af launum til æviloka.  Hér er einungis verið að bera saman áhrif hækkaðs lífaldurs og því ekki gert ráð fyrir öðrum þáttum, s.s. örorkubótum, launabreytingum á starfsævinni eða kostnaði við rekstur kerfisins.

Verð lífeyristrygginga 1971-2010

Iðgjald lífeyristrygginga 1971-2010 sem hlutfall af launum m.v. að greitt sé frá 27 ára aldri til 67 ára þegar taka lífeyris hefst. Lífeyrisgreiðslur eru 76% af launum.

Myndin til vinstri sýnir iðgjald sem hlutfall af launum miðað við lífslíkur karla og kvenna á hverju tímabili.  Verð lífeyristryggingar er reiknað sem hlutfall núvirðis lífeyrisgreiðslna deilt með núvirði iðgjalda.  Sökum væntinga um lengri ævi er hlutfallið hærra fyrir konur en karla.  Ljóst er að hækkaður lífaldur kallar á hækkun iðgjalda til að tryggja óbreytt hlutfall lífeyrisgreiðslna.  Árin 1971-1975 hefðu iðgjöld karla átt að vera 7,5% launa samanborið við 10% á árunum 2005-2010.  Hjá konum hefði hlutfallið þurft að vera 9,5% í byrjun en 11,3% í lokin.

Gera verður fyrirvara um að þessir útreikningar byggja á dánarlíkum hvers árabils en ekki spá um dánarlíkur í framtíðinni.  Ennfremur er rétt að hnykkja á þeim fyrirvara að útreikningarnir taka ekki tekið tillit til annarra bóta, sem greiddar eru úr samtryggingarkerfinu, eða rekstrarkostnaðar.

Lífslíkur

Forsenda þess að verðleggja líftengdar tryggingarafurðir, hvort heldur er líftryggingar eða lífeyriseign, er að meta lífslíkur einstaklings, sem í hlut á.  Það er því við hæfi að fyrsta efnilega innleggið í þessu bloggi fjalli um mat á lífslíkum.

Til þess að meta lífslíkur er stuðst við upplýsingar um mannfjölda og andlát.  Í mannfjöldatöflum er alla jafna skráð hve mörg heil ár einstaklingar lifa.  Út frá upplýsingum um mannfjölda og andlát fyrir hvert aldursbil má reikna lífslíkur hvers aldursárs.  Að því gefnu er svo hægt að reikna ólifaða meðalævi, þ.e. fjölda ára sem einstaklingur getur vænst þess að lifa að því gefnu að hann sé á lífi við tiltekinn aldur.

Myndin hér fyrir neðan sýnir lífslíkur nýbura á Íslandi m.v. dánartíðni árið 2011 skv. tölum um mannfjölda og andlát, sem Hagstofa Íslands skráir.  Heilu línurnar tákna lífslíkurnar en brotastrikin tákna 95% öryggismörk.  Myndin byggir aðeins á tölum eins árs.  Í litlum þjóðfélögum má nota upplýsingar yfir lengra tímabil til þess að minnka óvissubilið.

Samkvæmt myndinni teljast 99,4% líkur á því að nýfætt sveinbarn nái 20 ára aldri og 99,7% líkur á því að stúlkubarn nái sama aldri.  Það eru 3,2% líkur á því að karlmaður deyji fyrir fimmtugt en 1,5% að það sama hendi konu.

Í samanburði á milli þjóða er venja að bera saman vænta ævilengd nýbura en á sama hátt má reikna vænta ólifaða meðalævi m.v. hvert aldursár.  Þannig má vænta að nýfætt sveinbarn nái um 80 ára aldri og stúlkubörn um 84 ára aldri.

Myndin hér að ofan sýnir væntingar um ólifaða meðalævi fyrir öll aldursár.  Nái karlmaður 80 ára aldri er væntur árafjöldi, sem hann á eftir ólifaða, u.þ.b. 8 ár.  Kona, sem nær sama aldri, á um 10 ár eftir ólifuð að meðaltali.