Hagstofa Íslands mælir vísitölu neysluverðs, sem er mælikvarði á verðlag í landinu. Vísitalan er mikilvægur mælikvarði í efnahagslegu tilliti. Með hliðsjón af launaþróun er vísitala neysluverðs notuð til þess að meta hvort kaupmáttur aukist eða dragist saman. Flestum Íslendingum ætti einnig að vera kunnugt að vísitala neysluverðs myndar grunn fyrir verðtryggðar skuldbindingar, t.d. þorra fasteignalána til íbúðareigenda.
Í hverjum mánuði athuga starfsmenn Hagstofunnar verð mörg þúsund vöru- og þjónustuliða, sem mynda grunn vísitölunnar. Þá eru aðrir liðir, s.s. kostnaður húseigenda vegna eigin fasteigna, metnir eftir skilgreindum aðferðum vegna þess að ekki er um eiginleg útgjöld að ræða. Hagstofan birtir niðurstöður á mælingum verðlags einu sinni í mánuði og þá er einnig hægt að skoða þróun sérhverrar undirvísitölu. Stofnunin framkvæmir líka könnun á neyslumynstri landsmanna allt árið til þess að greina í hvaða hlutföllum útgjöldin dreifast á ólíka liði neyslunnar. Einu sinni á ári er vægi liða í vísitölunni endurskoðað til þess að samsetningin endurspegli sem best neyslumynstur landsmanna.
Vísitölunni er þannig ætlað að lýsa kostnaði fjölskyldna og einstaklinga vegna neyslu eins og hún er að jafnaði. Vegna ólíkra breytinga á einstökum undirvísitölum er ekki víst að allir upplifi sömu áhrif af verðbólgunni. Þótt allir uppskeri jafna hlutfallshækkun (eða lækkun þegar svo ber við) á verðtryggðum fasteignalánum er áhugavert að greina hvernig áhrif verðbólgunnar á ólíka neysluhópa, t.d. háð aldri, búsetu og fjölskyldugerð.
Á vef Hagstofu Íslands er hægt að nálgast gildi vísitölu neysluverðs aftur í tímann. Þá er einnig hægt að sækja einstakar undirvísitölur og vægi þeirra eins og það er ákvarðað. Þessu til viðbótar má finna grófa sundurliðun á niðurstöðum neyslukannana sem vikið var að hér að framan. Í þessari greiningu er stuðst við neyslukannanir Hagstofu Íslands til og með ársins 2011, sem er nýjasta könnunin sem aðgengileg er á vefnum. Þar má finna sundurliðun eftir búsetu, heimilisgerð og heimilistekjum. Í eldri neyslukönnun var einnig að finna samsetningu eftir aldri þegar um var að ræða einhleypinga.
Búseta
Í sundurliðun eftir búsetu skiptir Hagstofan landinu í þrjú svæði: höfuðborgarsvæðið, annað þéttbýli og dreifbýli.
Með því að nota vægi sérhvers neysluþáttar flokkað eftir landsvæðum er hægt að reikna áhrif verðbólgunnar eftir búsetu. Hér er átt við áhrif ólíks neyslumynsturs einstaklinga og fjölskyldna m.v. sama verðlag. Þannig er kostnaður fólks á höfuðborgarsvæðinu vegna eigin húsnæðis áætlaður hærra hlutfall af neyslu þess en hjá fólki sem býr utan höfuðborgarsvæðisins. Á móti má nefna að rafmagn og hiti og rekstur ökutækja er hlutfallslega hærri hluti af neyslu hjá fjölskyldum í dreifbýli en á höfuðborgarsvæðinu og í öðru þéttbýli.
Byggt á vægi sérhvers liðar má meta upplifaða verðbólgu, þ.e. áhrif verðbólgu á íbúa þessara svæða m.v. áætlað neyslumynstur. Fyrsta myndin til hægri sýnir áhrif neyslumynsturs á upplifaða verðbólgu fyrir ólík búsetusvæði. Á árunum 2005 til 2007 báru hækkanir á fasteignaverði uppi hækkun vísitölunnar ef frá eru skilin áhrif vegna gengisfalls á árinu 2006. Hækkun fasteignaverðs endurspeglast í vísitöluliðnum reiknuð húsaleiga, sem hefur hærra vægi á höfuðborgarsvæðinu og öðru þéttbýli en í dreifbýli. Áhrifin voru öfug frá 2009 til 2011 þegar reiknuð húsaleiga lækkaði og kostnaður við rekstur ökutækja jókst. Hvort tveggja olli því að upplifuð verðbólga reyndist hærri m.v. neyslumynstur fólks í dreifbýli en annars staðar.
Heimilisgerð
Hagstofan sundurliðar þátttakendur í neyslukönnuninni í fimm flokka eftir heimilisgerð. Flokkarnir eru einhleypir; barnlaus hjón og sambúðarfólk; hjón eða sambúðarfólk með börn; einstæðir foreldrar og önnur heimilisgerð.
Myndin hérna til vinstri sýnir upplifun ólíkra fjölskyldugerða á verðbólgunni.
Mestan tíma er lítill munur áhrifum verðbólgu á ólíkar fjölskyldugerðir. Í september 2013 mældist verbólga 3,9% en þá upplifðu barnlaus hjón 4,4% verðbólgu m.v. sitt neyslumynstur. Muninn má rekja til að þessi hópurinn greiðir hærra hlutfall neyslu sinnar í húsaleigu en aðrir hópar gera. Liðurinn greidd húsaleiga hefur hækkað umfram almennt verðlag að undanförnu og sökum þess reynast áhrifin hærri hjá barnlausum hjónum en öðrum að jafnaði.
Fjölskyldutekjur
Að teknu tilliti til fjölskyldutekna er þátttakendum í neyslukönnun Hagstofu Íslands skipt í fjögu tekjubil og meðalneysla hvers bils er sýnd. Myndin hérna til hægri sýnir hvernig sérhver tekjufjórðungur hefur að jafnaði upplifað verðbólguna miðað við sitt neyslumynstur.
Lengstan hluta er lítill munur á upplifaðri verðbólgu eftir því hvaða tekjubili þátttakendur tilheyra. Könnun Hagstofunnar sýnir að fólk í lægsta tekjubili ver að jafnaði tæplega tveimur prósentum í tóbak samanborið við tæplega eitt prósent hjá fólki efsta tekjubilinu. Áhrif verulegra verðhækkana á tóbaki á árinu 2009 leiddu til þess að verðbólguáhrifin á þennan hóp voru 0,4 prósentustigum hærri en hjá fólki í efsta tekjubilinu.
Þá eru einstaklingar og fjölskyldur í fyrsta og öðru tekjubilinu líka ólíklegri til að eiga fasteign og eiga ódýrari fasteignir en þeir sem eru í þriðja og fjórða bilinu. Þeir greiða því hærra hlutfall neyslu sinnar í húsaleigu. Vegna þessa hafa fyrsti og annar tekjufjórðungarnir hafa upplifað um hálfu prósentustigi hærri verðbólgu undanfarið ár en síðastliðnum hinir tekjufjórðungarnir.
Aldur
Í reglulegum neyslukönnunum Hagstofu Íslands, sem framkvæmdar hafa verið samfellt frá árinu 2000, er ekki að finna sundurliðun eftir aldursbilum. Í eldri könnunum var neysla einhleypinga sundurliðuð eftir aldursbilum.
Við nálgun upplifaðrar verðbólgu eftir aldurbilum er stuðst við neyslumynstur einhleypra í nýjustu neyslukönnun. Hún er sköluð með hlutfallsfrávikum eins og þau voru í könnun Hagstofunnar frá árinu 1995 fyrir þrjú aldursbil: 15-34 ára, 35-54 ára og 55-74 ára. Það ætti að gefa í það minnsta þokkalegt mat á upplifun ólíkra kynslóða á verðbólgunni nú. Niðurstöðurnar eru sýndar á myndinni hérna til hægri.
Fólk í yngri aldurshópunum er ólíklegra til að eiga fasteignir og á ódýrari eignir jafnaði. Af þeim sökum vó hækkun reiknaðrar húsaleigu á árunum 2005 til 2007 meira hjá hinum eldri. Að sömu ástlæðu upplifðu hinir eldri lægri verðbólgu á árunum eftir hrun þegar reiknuð húsaleiga lækkaði. Undanfarin misseri hafa einhleypir á aldrinum 18-34 ára upplifað meiri veriðbólgu vegna hækkunar á greiddri húsaleigu. Á móti kemur að síðastliðið ár hefur reiknuð húsaleiga einnig hækkað, sem vegur meira hjá aldursbilinu 55-74 ára. Að því leyti eru samanlögð áhrif greiddrar og reiknaðrar húsaleigu jöfn í öllum aldursbilum sl. 12 mánuði skv. síðustu mælingu.
Niðurlag
Hér hafa verið raktar helstu niðurstöður um áhrif verðbólgu á ólíka neysluhópa m.v. búsetu, heimilisgerð, heimilistekjum og aldri. Það dregur úr innbyrðis mun að allir hópar neyta í miklum mæli innflutra vara eða eru háðir þjónustuliðum, eru háðar gengi krónunnar.
Einna mestan innbyrðis mun á upplifun verðbólgunnar má rekja til fasteigna, þ.e. greiddrar eða reiknaðrar húsaleigu. Næst á eftir vegur rekstur farartækja. Þá sýndi það sig að skattahækkanir á tóbak höfðu breytileg verðbólguáhrif eftir heimilstekjum.