Tag Archives: Mannfjöldi

Aldurspíramíti

Aldurspíramítar eru notaðir til þess að sýna aldursskiptingu þjóða. Hreyfimyndin hér fyrir neðan sýnir aldursskiptingu Íslendinga árlega frá 1841 til 2012 m.v. hvert fimm ára aldursbil. Upplýsingarnar eru fengnar frá Hagstofu Íslands. Bláu súlurnar til vinstri tákna fjölda karlmanna í hverju aldursbili og rauðu súlurnar til hægri lýsa fjölda kvenna. Eins og greina má hefur aldurssamsetning þjóðarinnar breyst verulega á tímabilinu.

Myndin hér fyrir neðan sýnir hlutfallsskiptingu hvers árs. Í upphafi tímabilsins er píramítinn þríhyrningslaga, þ.e. fjöldi einstaklinga í hverju bili lækkar með hækkandi aldri. Raunar má segja að sú lögun hafi nokkurn vegin haldist frá 1841 og þar til um 1950 er fæðingartíðni jókst verulega. Eftir 1970 lækkaði fæðingartíðni aftur og hefur staðið nokkuð jöfn frá því um miðjan níunda áratug síðustu aldar. Í dag munar ekki miklu á yngstu ellefu aldurshópunum, þ.e. fjölda þeirra sem falla í hvert fimm ára aldursbil frá nýburum til 55 ára aldurs.

Áhugasamir geta stoppað myndirnar með því að hægrismella á þær og taka hakið úr Play eða hindra endurtekningu með því að taka hakið úr Loop.

Hækkun lífeyrisaldurs

Í þessari frétt á mbl.is frá því í síðustu viku er greint í mjög stuttu máli frá hugmynd nefndar um jöfnun lífeyrisréttinda um hækkun lífeyrisaldurs úr 67 ár í 70.  Þá er greint frá því að nefndin sé að skoða hvaða möguleikar séu færir til þess að lífeyrissjóðir geti greitt sem nemur 76% af ævitekjum til þess, sem greiðir í 40 ár í lífeyrissjóð.  Í ljósi þess er áhugavert að skoða þróun lífslíkna Íslendinga síðustu áratugina og hvaða áhrif lengri lífaldur hefur á iðgjaldagreiðslur miðað við óbreyttan lífeyrisaldur.

Þróun lífslíkna karla og kvenna 1971-2010

Þróun lífslíkna karla og kvenna 1971 til 2010. Heimild: Hagstofa Íslands

Myndin hérna til hægri byggir á gögnum frá Hagstofu Íslands og sýnir lífslíkur karla og kvenna á hverju fimm ára tímabili frá 1971 til 2010. Ferlarnir tákna hlutfall eftirlifenda á hverjum aldri (survival function) miðað við þá sem fæddir voru.  Í byrjun er 100% mannfjöldans á lífi en þeim fækkar eftir því sem líður á.  Við 100 ára aldur eru fáir eftirlifendur.

Ljósu ferlarnir svara til fyrstu tímabilanna en  síðari tímabil eru teiknuð með dekkri línunum.

Þessi gögn eru notuð til þess að meta núvirði greiðslna, sem sjóðsfélagi greiðir í lífeyrissjóð, sem og núvirði væntra lífeyrisgreiðslna.  Þær upplýsingar eru notaðar til þess að ákvarða iðgjald lífeyristryggingarinnar sem hlutfall af launum.  Eins og lýst er í fréttinni er gengið út frá því að sjóðsfélagar greiði iðgjöld frá 27 ára aldri til 67 ára aldurs eða á meðan þeir er á lífi.  Þeir sem ná að hefja töku lífeyris þiggja 76% af launum til æviloka.  Hér er einungis verið að bera saman áhrif hækkaðs lífaldurs og því ekki gert ráð fyrir öðrum þáttum, s.s. örorkubótum, launabreytingum á starfsævinni eða kostnaði við rekstur kerfisins.

Verð lífeyristrygginga 1971-2010

Iðgjald lífeyristrygginga 1971-2010 sem hlutfall af launum m.v. að greitt sé frá 27 ára aldri til 67 ára þegar taka lífeyris hefst. Lífeyrisgreiðslur eru 76% af launum.

Myndin til vinstri sýnir iðgjald sem hlutfall af launum miðað við lífslíkur karla og kvenna á hverju tímabili.  Verð lífeyristryggingar er reiknað sem hlutfall núvirðis lífeyrisgreiðslna deilt með núvirði iðgjalda.  Sökum væntinga um lengri ævi er hlutfallið hærra fyrir konur en karla.  Ljóst er að hækkaður lífaldur kallar á hækkun iðgjalda til að tryggja óbreytt hlutfall lífeyrisgreiðslna.  Árin 1971-1975 hefðu iðgjöld karla átt að vera 7,5% launa samanborið við 10% á árunum 2005-2010.  Hjá konum hefði hlutfallið þurft að vera 9,5% í byrjun en 11,3% í lokin.

Gera verður fyrirvara um að þessir útreikningar byggja á dánarlíkum hvers árabils en ekki spá um dánarlíkur í framtíðinni.  Ennfremur er rétt að hnykkja á þeim fyrirvara að útreikningarnir taka ekki tekið tillit til annarra bóta, sem greiddar eru úr samtryggingarkerfinu, eða rekstrarkostnaðar.

Lífslíkur

Forsenda þess að verðleggja líftengdar tryggingarafurðir, hvort heldur er líftryggingar eða lífeyriseign, er að meta lífslíkur einstaklings, sem í hlut á.  Það er því við hæfi að fyrsta efnilega innleggið í þessu bloggi fjalli um mat á lífslíkum.

Til þess að meta lífslíkur er stuðst við upplýsingar um mannfjölda og andlát.  Í mannfjöldatöflum er alla jafna skráð hve mörg heil ár einstaklingar lifa.  Út frá upplýsingum um mannfjölda og andlát fyrir hvert aldursbil má reikna lífslíkur hvers aldursárs.  Að því gefnu er svo hægt að reikna ólifaða meðalævi, þ.e. fjölda ára sem einstaklingur getur vænst þess að lifa að því gefnu að hann sé á lífi við tiltekinn aldur.

Myndin hér fyrir neðan sýnir lífslíkur nýbura á Íslandi m.v. dánartíðni árið 2011 skv. tölum um mannfjölda og andlát, sem Hagstofa Íslands skráir.  Heilu línurnar tákna lífslíkurnar en brotastrikin tákna 95% öryggismörk.  Myndin byggir aðeins á tölum eins árs.  Í litlum þjóðfélögum má nota upplýsingar yfir lengra tímabil til þess að minnka óvissubilið.

Samkvæmt myndinni teljast 99,4% líkur á því að nýfætt sveinbarn nái 20 ára aldri og 99,7% líkur á því að stúlkubarn nái sama aldri.  Það eru 3,2% líkur á því að karlmaður deyji fyrir fimmtugt en 1,5% að það sama hendi konu.

Í samanburði á milli þjóða er venja að bera saman vænta ævilengd nýbura en á sama hátt má reikna vænta ólifaða meðalævi m.v. hvert aldursár.  Þannig má vænta að nýfætt sveinbarn nái um 80 ára aldri og stúlkubörn um 84 ára aldri.

Myndin hér að ofan sýnir væntingar um ólifaða meðalævi fyrir öll aldursár.  Nái karlmaður 80 ára aldri er væntur árafjöldi, sem hann á eftir ólifaða, u.þ.b. 8 ár.  Kona, sem nær sama aldri, á um 10 ár eftir ólifuð að meðaltali.