Tag Archives: Verðbólga

Samanburður við Svíþjóð

Í fyrri færslu var fjallað um nýútkomnar auglýsingar Samtaka atvinnulífsins um verðlag, laun og kaupmátt á Íslandi og samanburð þeirra við hin Norðurlöndin. Það er ástæðulaust að endurtaka of mikið af því sem þar kom fram en hér verður lagst í samanburð við eitt landanna; Svíþjóð.

Laun í Svíþjóð (efri) og ársbreyting þeirra (neðri).

Laun í Svíþjóð (efri) og ársbreyting þeirra (neðri). Heimild: Statistiska Centralbyrån.

Á vef Hagstofu Svíþjóðar, Statistiska Centralbyrån, scb.se, eru til samfelldar skráningar um laun fyrir fullt starf í iðnaðar- og framleiðslustörfum á almennum vinnumarkaði. Þau ná aftur til 1975 og ættu að vera ágæt nálgun á launaþróun í Svíþjóð í samanburði við launavísitölu Hagstofu Íslands.

Í tvo áratugi frá 1975 hækkuðu laun í Svíþjóð að meðaltali um 7,5 prósent að meðaltali á ári en eftir það hafa þau hækkað um 4,0 prósent að jafnaði. Launaþróuninni er lýst á myndinni hér til hægri þar sem gildið hefur verið stillt við 100 árið 1995. Neðra ritið sýnir árlegar hlutfallsbreytingar.

Vísitala neysluverðs í Svíþjóð (efri) og árleg hlutfallsbreyting (neðri)

Vísitala neysluverðs í Svíþjóð (efri) og árleg hlutfallsbreyting (neðri). Heimild: Statistiska Centralbyrån.

Hagstofa Svíþjóðar mælir vísitölu neysluverðs eins og sú íslenska. Á línuritinu hérna til vinstri má sjá þróunina frá 1975. Sem fyrr lýsir efri myndin vísitölunni og sú neðri táknar hlutfallsbreytingu frá fyrra ári á hverjum tíma.

Á tímabilinu frá 1975 til 1995 mældist meðalverðbólga í Svíþjóð 7,5%. Fimm af fyrstu tíu árunum mældist verðbólga yfir 10%. Eftir 1995 hefur verðbólga í Svíþjóð verið um 1,3% að meðaltali á ári.

 

 

Þróun kaupmáttar launa í Svíþjóð (efri) og árleg hlutfallsbreyting (neðri). Heimild: Hagstofa Svíþjóðar, scb.se.

Þróun kaupmáttar launa í Svíþjóð (efri) og árleg hlutfallsbreyting (neðri). Heimild: Statistiska Centralbyrån.

Þrátt fyrir verulegar launahækkanir á fyrri hluta tímabilsins héldu þær ekki í við verðlag svo að það dró úr kaupmætti nær samfellt í tíu ár. Samkvæmt línuritinu var kaupmáttur lægstur árið 1983 og hafði þá lækkað um átján prósent á átta árum.

Í áratug frá 1983 til 1993 jókst kaupmáttur samtals um tæplega níu prósent en hafði þó ekki náð fyrra gildi. Öll ár frá 1993 hefur kaupmáttur launa í Svíþjóð aukist samkvæmt þessum gögnum.

Til þess að skoða þróunina á Íslandi og í Svíþjóð í samhengi hafa vísitölur neysluverðs og launa verið teiknaðar á eina mynd, sem sýnd er hér á eftir. Allar mætast þær í gildinu 100 árið 1995.

Þróun launa og verðlags á Íslandi og í Svíþjóð.

Þróun launa og verðlags á Íslandi og í Svíþjóð. Heimildir: Hagstofa Íslands og Statistiska Centralbyrån.

Eins og fram kom í fyrri færslu jókst kaupmáttur launa á Íslandi öll ár frá 1995 til 2007. Á þessum tíma hækkuðu laun á Íslandi um 130% sé miðað við launavísitölu Hagstofu Íslands og verðlag hækkaði um 58%. Það jafngildir 45% kaupmáttaraukningu.

Á sama árabili hækkuðu laun í Svíþjóð um 65% samkvæmt gögnum sænsku stofnunarinnar en verðlag um 14%. Það skilaði jafn mikilli kaupmáttaraukningu eða 45%! Síðan þá hefur kaupmáttur launa í Svíþjóð vaxið um 10% en dregist saman um 9% á Íslandi.

Áhrif launahækkana

Í síðustu færslu var sýnt samband launahækkana og kaupmáttaraukningar. Ef til vill hefði mátt orða niðurstöðurnar skýrar en greina mátti að háar launahækkanir drógu úr kaupmætti til lengri tíma. Þar var nefnt að mörk hækkana gætu legið á bilinu fjögur til sex prósent. Hækki laun umfram það er líklegt að það hafi neikvæð áhrif á kaupmátt til lengri tíma.

Sér í lagi mátti greina þau áhrif á öðru og þriðja ári eftir mikla hækkun launa. Þetta rímar ágætlega við lögmál í hagfræði um að launahækkanir umfram framleiðniaukningu leiði til aukinnar verðbólgu, sem dregur úr kaupmætti.

Fyrri greining byggði aðeins á gögnum frá Íslandi yfir tveggja áratuga tímabil en með því að bæta við gögnum frá Svíþjóð yfir lengra tímabili lætur nærri að gagnamengið þrefaldist. Það bætir matið á áhrifum þessa sambands, ef rétt reynist.

Myndin hér fyrir neðan sýnir samband launahækkana og breytingar á kaupmætti í báðum löndum fyrir öll skráð ár. Efst til vinstri er sýnt samband launahækkana og kaupmáttaraukningar á því ári sem hún fellur til. Myndin efst til hægri sýnir breytingu kaupmáttar miðað við launabreytingu fyrra árs. Neðri myndirnar sýna breytingarnar tveimur og þremur árum eftir að laun hækka.

Samband breytinga á vísitölu launa og vísitölu kaupmáttar. Efri myndin til vinstri lýsir sambandi kaupmáttar sama ár og launabreyting. Myndin uppi til hægri lýsir breytingu kaupmáttar og launabreytingar ári áður. Myndirnar í neðri röð lýsa breytingu kaupmáttar.

Samband breytinga á vísitölu launa og vísitölu kaupmáttar. Efri myndin til vinstri lýsir sambandi kaupmáttar sama ár og launabreyting. Myndin uppi til hægri lýsir breytingu kaupmáttar og launabreytingar ári áður. Myndirnar í neðri röð lýsa breytingu kaupmáttar tveimur og þremur árum síðar. Heimild: Hagstofa Íslands og Statistiska centralbyrån..

Bláu punktarnir lýsa sambandi launahækkana og kaupmáttar á Íslandi. Rauðu punktarnir lýsa sambandinu í Svíþjóð fyrir árið 1995 og grænu punktarnir 1996 og síðar. Á þremur síðasttöldu myndunum má sjá að fylgnin er neikvæð fyrir mikla hækkun launa. Það kann að vera matsatriði hvar þjálguðu (smoothed) ferlarnir byrja að sveigja niður á við. Álykta má að það geti verið við 4-6% mörkin.

Áhrif gengisbreytinga

Áhrif breytinga á gengi gjaldmiðils má skoða með sama hætti. Hér er miðað við krossgengi íslensku og sænsku krónunnar gagnvart Bandaríkjadal og breytingu frá einu ári til annars. Breytingar á gengi íslensku krónunnar hafa meiri áhrif á verðlag á Íslandi en gengi sænsku krónunnar hefur á verðlag í Svíþjóð.

Myndirnar hér fyrir neðan sýna samband kaupmáttarbreytinga og gengissveiflna milli ára. Efst til vinstri eru sýnd áhrif gengisbreytinga á kaupmátt sama ár og gengisbreyting á sér stað. Næsta mynd sýnir áhrif á kaupmátt ári síðar og svo koll af kolli.

Samband breytinga á gengi gjaldmiðils og kaupmáttar.

Samband breytinga á gengi gjaldmiðils og kaupmáttar. Efri myndin til vinstri lýsir sambandi kaupmáttar sama ár og launabreyting. Myndin uppi til hægri lýsir breytingu kaupmáttar og launabreytingar ári áður. Myndirnar í neðri röð lýsa breytingu kaupmáttar tveimur og þremur árum síðar. Heimildir: Hagstofa Íslands og Hagstofa Svíþjóðar.

Augljóst er að mikil gengislækkun hefur áhrif á kaupmátt. Þ.e. falli gengi gjaldmiðilsins umfram 10% þá er fylgnin neikvæð. Áhrifin koma fram sama ár og að litlum hluta ári síðar. Áhugavert er að áhrifin eru ekki samhverf, þ.e. styrkist gengi gjaldmiðilsins umfram 10% þá eykur það ekki kaupmátt í jafn miklum mæli gengisfall dregur úr honum hann.

Líkan

Þessar ályktanir eru notaðar til þess að stilla upp línulegu aðhvarfsgreiningarlíkani, sem metur áhrif launahækkana og gengisbreytinga á kaupmátt. Frumbreytur líkansins eru:

  • Launahækkanir
  • Launahækkanir umfram 5% (án tímahliðrunar og með tímahliðrun)
  • Gengisbreytingar umfram 10%  (án tímahliðrunar og með tímahliðrun)

Í stuttu máli benda stuðlar endanlegs líkans til eftirfarandi niðurstöðu (marktækni stuðla er táknuð með merkingum innan sviga):

  • Hækkun launa: hvert prósent skilar 0,65% aukningu kaupmáttar (*)
  • Hækkun launa umfram 5%: hvert prósent dregur úr kaupmætti
        • -0,29% á upphafsári
        • -0,63% á fyrsta ári (***)
        • -0,21% á öðru ári
        • -0,42% á þriðja ári (**)
        • Samtals -1,55% á fjórum árum.
  • Gengisfall umfram 10%: hvert prósent rýrir kaupmátt um 0,22% (***).

Samkvæmt þessu einfaldaða líkani yrði ábati af 2% launahækkun 1,3% aukning kaupmáttar. Fimm prósent launahækkun gæti að skilað 3,25% kaupmáttaraukningu. Hækki laun umfram það rýrnar kaupmáttur til lengri tíma. Til dæmis mætti áætla að hækki laun um 7% þá leiddi það aðeins til 1,45% varanlegrar kaupmáttaraukningar.

Er minna meira?

Skjáskot úr auglýsingu samtaka atvinnulífsins.

Skjáskot úr auglýsingu Samtaka atvinnulífsins sem sýnir hækkun launa og verðlags á árunum frá 2006 til 2013. Heimild: sa.is.

Það fór vart fram hjá fréttaþyrstum að Samtök atvinnulífsins frumsýndu sjónvarpsauglýsingu í vikunni þar sem umfjöllunarefnið voru verðlag, laun og kaupmáttur þeirra á Íslandi. Boðskapur auglýsingarinnar er hversu mikið verðbólga hefur rýrt kaupmátt launa í landinu. Auglýsingin var í sk. infographics-stíl, þ.e. hún blandaði saman flæðandi tölum, myndritum og táknmyndum, sem hreyfðust í takt við skilaboð auglýsandans.

Yfirbragði infographics-framsetninga er ætlað að vera einfalt og stundum þannig að slakað er um of á eðlilegum kröfum við framsetningu myndrita, s.s. að merkja ása, geta heimilda o.s.frv. Hér er ætlunin að hemja áráttu-þráhyggjuna en rétt að benda á þessi grundvallaratriði í gagnaframsetningu. Því ber fyrst og fremst að fagna þegar fólk og fyrirtæki nota raunveruleg gögn til ákvarðanatöku eða styðja málstað sinn.

Í auglýsingunni bar fyrir línuritinu, sem sýnt er efst til hægri. Bláu og rauðu línurnar sýna þróun launa frá árinu 2006 til 2013 annars vegar og almenns verðlags hins vegar. Græna og ljósgræna lína sýna þróun verðlags og launa á öðrum Norðurlöndum.

Vísitala launa og vísitala neysluverðs frá 2006 til 2013.

Vísitala launa og vísitala neysluverðs frá 2006 til 2013. Heimild: Hagstofa Íslands.

Myndin hérna til vinstri er endurgerð á línuritinu úr auglýsingu Samtaka atvinnulífsins. Hún byggir á tölum frá Hagstofu Íslands og sýnir meðalgildi vísitalnanna á hverju almanaksári. Meðaltal alls ársins 2013 liggur ekki fyrir og þess í stað reiknað meðaltal mánaðanna janúar til október.

Báðar vísitölur eru kvarðaðar miðað við gildið 100 árið 2006 og í megindráttum er lögun ferlanna eins og kemur fram í auglýsingunni.  Frá 2006 hefur vísitala launa hækkað um 56% en vísitala neysluverðs um 58%. Það er samhljóða niðurstöðum Samtaka atvinnulífsins um að þrátt fyrir miklar launahækkanir á undanförnum árum þá hefur kaupmáttur launa rýrnað örlítið sé miðað við þetta tímabil.

Vísitala launa og ársbreyting vísitölu launa.

Vísitala launa m.v. meðaltal hvers árs (efri) og ársbreyting vísitölu launa (neðri). Heimild: Hagstofa Íslands.

Til þes að kryfja gögnin til mergjar og sannreyna fullyrðingar SA er ástæða til að skoða þróunina yfir lengra tímabil.

Myndin hérna til hægri sýnir þróun vísitölu launa frá árinu 1989 til 2013. Eins og á fyrri mynd eru gögnin kvörðuð m.v. gildið 100 árið 2006, sem breytir þó ekki lögun ferilsins. Á tímabilinu hefur vísitala launa hækkað um 329%.

Að meðaltali hefur árleg hlutfallsbreyting á vísitölu launa verið 6,3%. Fyrstu fjórðungsmörkin eru 4,8% sem þýðir að eitt ár af hverjum fjórum hafa launahækkanir verið lægri en sem því nemur. Þriðju fjórðungsmörkin eru 8,2% sem þýðir að fjórðung áranna hafa launahækkanir verið hærri en það. Helming áranna hafa launahækkanir verið á bilinu 4,8% til 8,2%.

Vísitala neysluverðs m.v. meðalgildi hvers árs (efri) og breyting á vísitölu neysluverðs (neðri). Heimild: Hagstofa Íslands.

Vísitala neysluverðs m.v. meðalgildi hvers árs og breyting á vísitölu neysluverðs.

Vísitala neysluverðs hefur einnig hækkað verulega á tímabilinu. Ferillinn er sýndur hérna til vinstri og skalaður m.v. gildið 100 árið 2006. Frá árinu 1998 hefur vísitala neysluverðs hækkað um 225%. Á tímabilinu hefur ársverðbólga mælst 5,1% að meðaltali.

Fyrstu og þriðju fjórðungsmörk árlegra hlutfallsbreytinga vísitölunnar eru 3,0% og 5,2% sem þýðir að helming áranna hefur hlutfallsbreytingin legið á því bili. Fjórðung áranna hefur breytingin verið minni og fjórðung áranna hefur hún verið meiri.

Kaupmáttur launa er reiknaður sem hlutfallsbreyting launa umfram hlutfallsbreytingu á verðlagi. Ef laun hækka umfram verðbólgu eykst kaupmáttur en ef verðbólgan er meiri þá rýrnar kaupmáttur.

Vísitala kaupmáttar launa og ársbreyting kaupmáttarvísitölu.

Vísitala kaupmáttar launa (efri) og ársbreyting kaupmáttarvísitölu (neðri). Heimild: Hagstofa Íslands.

Hagstofa Íslands reiknar vísitölu kaupmáttar, sem byggir á vísitölunum hér að framan. Myndin til hægri sýnir vísitölu kaupmáttar launa og árlegar breytingar á henni.

Sautján ár af síðastliðnum 24 hefur kaupmáttur launa aukist en sjö ár hefur dregið úr honum. Hér er aftur miðað við meðaltal vísitölunnar fyrir hvert almanaksár. Að meðaltali hefur kaupmáttur aukist um 1,2% á ári.

Mörk fyrsta fjórðungs eru -0,4%, sem þýðir að fjórðung áranna hefur kaupmáttur rýrnað um meira en sem nemur 0,4 prósentustigum. Þriðju fjórðungsmörkin eru 2,9% sem þýðir að fjórðung áranna hefur kaupmáttur aukist umfram það.

Samkvæmt mælingum Hagstofu Íslands hefur kaupmáttur launa aukist um 32% á tímabilinu öllu.

Í aðdraganda komandi kjarasamninga hafa forsvarsmenn Samtaka atvinnulífsins talað fyrir hóflegum launahækkunum. Inntak áðurnefndrar auglýsingar er að að 2% hækkun muni skila sér í hærri kaupmætti en verði hækkunin á bilinu 5-6%. Óhætt er að segja að auglýsingin hafi vakið athygli. Framsetningin hleypti illu blóði í suma forsvarsmenn launþegahreyfinga og einhverjir vildu meina að ekki væri öll sagan sögð. Ástæður aukinnar verðbólgu á Íslandi ættu sér einnig rót í óstöðugu gengi íslensku krónunnar og það kann að verða umfjöllunarefni hér síðar.

Samband launa og kaupmáttar

Við greiningu á slembiferlum (random process) í merkjafræði og tímaraðagreiningu er mikilvægt að gera sér grein fyrir skilyrðum um hvenær þau teljast stöðug eða í jafnvægi (stationary). Í því samhengi er hæpið að teikna tvær vaxandi tímaraðir, sem hvorug uppfyllir áðurnefnd skilyrði, og gera ráð fyrir að samband sé á milli þeirra. Hær væri nær að skoða fyrstu afleiðu sambands þeirra, t.d. árlega hlutfallsbreytingu þessara mælikvarða.

Myndirnar hér fyrir neðan lýsa sambandi á ársbreytingu launavísitölu og breytinga kaupmáttar. Í þessari framsetningu er ársbreyting launa frumbreytan (explanatory variable) en breyting kaupmáttar fylgibreytan (dependent variable).

Á myndinni efst til vinstri táknar sérhver punktur hlutfallsbreytingu launa og kaupmáttar á sama ári. Staða bláu punktanna miðað við lárétta ásinn lýsir hlutfallsbreytingu launa frá fyrra ári og lóðrétt staða þeirra lýsir breytingu kaupmáttar. Græna línan táknar hefðbundið línulegt líkan sem lýsir sambandi sambandi þessara breytistærða. Rauði ferillinn lýsir LOWESS-líkani sem sett saman úr margliðuföllum.

Það er þarf kannski ekki að koma á óvart að það er jákvætt samband á milli breytingar á launum og kaupmætti þeirra fyrsta árið þótt sambandið sé ekki tölfræðilega marktækt. Fyrir hvert prósentustig sem laun hækka eykst kaupmáttur um hálft prósent. Árin 1990, 2008 og 2009 skera sig úr þessu mengi punkta þegar kaupmáttur launa rýrnaði umtalsvert.

Samband breytinga á vísitölu launa og vísitölu kaupmáttar með og án hliðrunar..

Samband breytinga á vísitölu launa og vísitölu kaupmáttar. Efri myndin til vinstri lýsir sambandi kaupmáttar sama ár og launabreyting. Myndin uppi til hægri lýsir breytingu kaupmáttar og launabreytingar ári áður. Myndirnar í neðri röð lýsa breytingu kaupmáttar tveimur og þremur árum síðar. Heimild: Hagstofa Íslands

Myndin efst til hægri lýsir sambandi breytinga á kaupmætti og launabreytinga einu ári áður. Það er ekki fylgni á milli sambands kaupmáttarbreytinga og launabreytinga ársins á undan.

Áhugavert er að skoða neðri myndirnar sem lýsa sambandi breytinga á vísitölu kaupmáttar með tveggja og þriggja ára seinkun. Línulegu líkönin sýna að samband kaupmáttar og launabreytinga tveimur og þremur árum áður er neikvætt. Ef rýnt er í LOWESS-ferlana má raunar greina að framan af eru þeir nær flatir, sem þýðir að á bilinu undir fjórum eða sex prósentustigum er lítið samband á milli breytingar á kaupmætti og launum. Niðurstöðurnar styðja við þá skoðun að launahækkanir umfram þessi mörk séu ekki líklegar til að tryggja aukinn kaupmátt til lengri tíma litið.

Víst er að aðilar vinnumarkaðarins standa ekki frammi fyrir öfundsverðu verkefni þegar þeir hefja karp um kaup og kjör á næstunni. Bæði launþegar og atvinnurekendur hafa fengið að finna fyrir víxlhækkunum verðlags og launa og orðnir langeygir eftir minni óvissu um framtíðina.

Orð eru til alls fyrst og gott ef einhver vill læra af reynslunni.

Áhrif verðbólgu á ólíka neysluhópa

Hagstofa Íslands mælir vísitölu neysluverðs, sem er mælikvarði á verðlag í landinu. Vísitalan er mikilvægur mælikvarði í efnahagslegu tilliti. Með hliðsjón af launaþróun er vísitala neysluverðs notuð til þess að meta hvort kaupmáttur aukist eða dragist saman. Flestum Íslendingum ætti einnig að vera kunnugt að vísitala neysluverðs myndar grunn fyrir verðtryggðar skuldbindingar, t.d. þorra fasteignalána til íbúðareigenda.

Í hverjum mánuði athuga starfsmenn Hagstofunnar verð mörg þúsund vöru- og þjónustuliða, sem mynda grunn vísitölunnar. Þá eru aðrir liðir, s.s. kostnaður húseigenda vegna eigin fasteigna, metnir eftir skilgreindum aðferðum vegna þess að ekki er um eiginleg útgjöld að ræða. Hagstofan birtir niðurstöður á mælingum verðlags einu sinni í mánuði og þá er einnig hægt að skoða þróun sérhverrar undirvísitölu. Stofnunin framkvæmir líka könnun á neyslumynstri landsmanna allt árið til þess að greina í hvaða hlutföllum útgjöldin dreifast á ólíka liði neyslunnar. Einu sinni á ári er vægi liða í vísitölunni endurskoðað til þess að samsetningin endurspegli sem best neyslumynstur landsmanna.

Vísitölunni er þannig ætlað að lýsa kostnaði fjölskyldna og einstaklinga vegna neyslu eins og hún er að jafnaði. Vegna ólíkra breytinga á einstökum undirvísitölum er ekki víst að allir upplifi sömu áhrif af verðbólgunni. Þótt allir uppskeri jafna hlutfallshækkun (eða lækkun þegar svo ber við) á verðtryggðum fasteignalánum er áhugavert að greina hvernig áhrif verðbólgunnar á ólíka neysluhópa, t.d. háð aldri, búsetu og fjölskyldugerð.

Á vef Hagstofu Íslands er hægt að nálgast gildi vísitölu neysluverðs aftur í tímann. Þá er einnig hægt að sækja einstakar undirvísitölur og vægi þeirra eins og það er ákvarðað. Þessu til viðbótar má finna grófa sundurliðun á niðurstöðum neyslukannana sem vikið var að hér að framan. Í þessari greiningu er stuðst við neyslukannanir Hagstofu Íslands til og með ársins 2011, sem er nýjasta könnunin sem aðgengileg er á vefnum. Þar má finna sundurliðun eftir búsetu, heimilisgerð og heimilistekjum. Í eldri neyslukönnun var einnig að finna samsetningu eftir aldri þegar um var að ræða einhleypinga. 

Búseta

Í sundurliðun eftir búsetu skiptir Hagstofan landinu í þrjú svæði: höfuðborgarsvæðið, annað þéttbýli og dreifbýli.

Upplifuð verðbólga eftir neyslumynstri háð búsetu. Heimild: Hagstofa Íslands.

Upplifuð verðbólga eftir neyslumynstri háð búsetu. Heimild: Hagstofa Íslands.

Með því að nota vægi sérhvers neysluþáttar flokkað eftir landsvæðum er hægt að reikna áhrif verðbólgunnar eftir búsetu. Hér er átt við áhrif ólíks neyslumynsturs einstaklinga og fjölskyldna m.v. sama verðlag. Þannig er kostnaður fólks á höfuðborgarsvæðinu vegna eigin húsnæðis áætlaður hærra hlutfall af neyslu þess en hjá fólki sem býr utan höfuðborgarsvæðisins. Á móti má nefna að rafmagn og hiti og rekstur ökutækja er hlutfallslega hærri hluti af neyslu hjá fjölskyldum í dreifbýli en á höfuðborgarsvæðinu og í öðru þéttbýli.

Byggt á vægi sérhvers liðar má meta upplifaða verðbólgu, þ.e. áhrif verðbólgu á íbúa þessara svæða m.v. áætlað neyslumynstur. Fyrsta myndin til hægri sýnir áhrif neyslumynsturs á upplifaða verðbólgu fyrir ólík búsetusvæði. Á árunum 2005 til 2007 báru hækkanir á fasteignaverði uppi hækkun vísitölunnar ef frá eru skilin áhrif vegna gengisfalls á árinu 2006. Hækkun fasteignaverðs endurspeglast í vísitöluliðnum reiknuð húsaleiga, sem hefur hærra vægi á höfuðborgarsvæðinu og öðru þéttbýli en í dreifbýli. Áhrifin voru öfug frá 2009 til 2011 þegar reiknuð húsaleiga lækkaði og kostnaður við rekstur ökutækja jókst. Hvort tveggja olli því að upplifuð verðbólga reyndist hærri m.v. neyslumynstur fólks í dreifbýli en annars staðar.

Heimilisgerð

Upplifuð verðbólga eftir neyslumynstri háð heimilisgerð. Heimild: Hagstofa Íslands.

Upplifuð verðbólga eftir neyslumynstri háð heimilisgerð. Heimild: Hagstofa Íslands.

Hagstofan sundurliðar þátttakendur í neyslukönnuninni í fimm flokka eftir heimilisgerð. Flokkarnir eru einhleypir; barnlaus hjón og sambúðarfólk; hjón eða sambúðarfólk með börn; einstæðir foreldrar og önnur heimilisgerð.

Myndin hérna til vinstri sýnir upplifun ólíkra fjölskyldugerða á verðbólgunni.

Mestan tíma er lítill munur áhrifum verðbólgu á ólíkar fjölskyldugerðir. Í september 2013 mældist verbólga 3,9% en þá upplifðu barnlaus hjón 4,4% verðbólgu m.v. sitt neyslumynstur. Muninn má rekja til að þessi hópurinn greiðir hærra hlutfall neyslu sinnar í húsaleigu en aðrir hópar gera. Liðurinn greidd húsaleiga hefur hækkað umfram almennt verðlag að undanförnu og sökum þess reynast áhrifin hærri hjá barnlausum hjónum en öðrum að jafnaði.

Fjölskyldutekjur

Upplifuð verðbólga eftir neyslumynstri háð tekjubilum. Heimild: Hagstofa Íslands.

Upplifuð verðbólga eftir neyslumynstri háð tekjubilum. Heimild: Hagstofa Íslands.

Að teknu tilliti til fjölskyldutekna er þátttakendum í neyslukönnun Hagstofu Íslands skipt í fjögu tekjubil og meðalneysla hvers bils er sýnd. Myndin hérna til hægri sýnir hvernig sérhver tekjufjórðungur hefur að jafnaði upplifað verðbólguna miðað við sitt neyslumynstur.

Lengstan hluta er lítill munur á upplifaðri verðbólgu eftir því hvaða tekjubili þátttakendur tilheyra. Könnun Hagstofunnar sýnir að fólk í lægsta tekjubili ver að jafnaði tæplega tveimur prósentum í tóbak samanborið við tæplega eitt prósent hjá fólki efsta tekjubilinu. Áhrif verulegra verðhækkana á tóbaki á árinu 2009 leiddu til þess að verðbólguáhrifin á þennan hóp voru 0,4 prósentustigum hærri en hjá fólki í efsta tekjubilinu.

Þá eru einstaklingar og fjölskyldur í fyrsta og öðru tekjubilinu líka ólíklegri til að eiga fasteign og eiga ódýrari fasteignir en þeir sem eru í þriðja og fjórða bilinu. Þeir greiða því hærra hlutfall neyslu sinnar í húsaleigu. Vegna þessa hafa fyrsti og annar tekjufjórðungarnir hafa upplifað um hálfu prósentustigi hærri verðbólgu undanfarið ár en síðastliðnum hinir tekjufjórðungarnir.

Aldur

Upplifuð verðbólga einhleypings eftir aldri. Heimild: Hagstofa Íslands.

Upplifuð verðbólga einhleypings eftir aldri. Heimild: Hagstofa Íslands.

Í reglulegum neyslukönnunum Hagstofu Íslands, sem framkvæmdar hafa verið samfellt frá árinu 2000, er ekki að finna sundurliðun eftir aldursbilum. Í eldri könnunum var neysla einhleypinga sundurliðuð eftir aldursbilum.

Við nálgun upplifaðrar verðbólgu eftir aldurbilum er stuðst við neyslumynstur einhleypra í nýjustu neyslukönnun. Hún er sköluð með hlutfallsfrávikum eins og þau voru í könnun Hagstofunnar frá árinu 1995 fyrir þrjú aldursbil: 15-34 ára, 35-54 ára og 55-74 ára. Það ætti að gefa í það minnsta þokkalegt mat á upplifun ólíkra kynslóða á verðbólgunni nú. Niðurstöðurnar eru sýndar á myndinni hérna til hægri.

Fólk í yngri aldurshópunum er ólíklegra til að eiga fasteignir og á ódýrari eignir jafnaði. Af þeim sökum vó hækkun reiknaðrar húsaleigu á árunum 2005 til 2007 meira hjá hinum eldri. Að sömu ástlæðu upplifðu hinir eldri lægri verðbólgu á árunum eftir hrun þegar reiknuð húsaleiga lækkaði. Undanfarin misseri hafa einhleypir á aldrinum 18-34 ára upplifað meiri veriðbólgu vegna hækkunar á greiddri húsaleigu. Á móti kemur að síðastliðið ár hefur reiknuð húsaleiga einnig hækkað, sem vegur meira hjá aldursbilinu 55-74 ára. Að því leyti eru samanlögð áhrif greiddrar og reiknaðrar húsaleigu jöfn í öllum aldursbilum sl. 12 mánuði skv. síðustu mælingu.

Niðurlag

Hér hafa verið raktar helstu niðurstöður um áhrif verðbólgu á ólíka neysluhópa m.v. búsetu, heimilisgerð, heimilistekjum og aldri. Það dregur úr innbyrðis mun að allir hópar neyta í miklum mæli innflutra vara eða eru háðir þjónustuliðum, eru háðar gengi krónunnar.

Einna mestan innbyrðis mun á upplifun verðbólgunnar má rekja til fasteigna, þ.e. greiddrar eða reiknaðrar húsaleigu. Næst á eftir vegur rekstur farartækja. Þá sýndi það sig að skattahækkanir á tóbak höfðu breytileg verðbólguáhrif eftir heimilstekjum.