Orðið hagur sameinar nokkrar ólíkar merkingar, sem geta vonandi allar átt við sem titill þessa bloggs um tryggingastærðfræði. Það vísar til þess sem gagn er af. Einnig táknar hagur ábata, jafngilt enska orðinu benefit, um bætur til þess, sem verður fyrir tjóni. Þriðja merkingin táknar efnahag, t.d. fé og fjármuni. Lýsingarorðið hagur getur átt við um þá, sem skila góðu handverki eða setja saman skemmtilegar vísur.
Hér er reynt að tengja efnistök tryggingastærðfræði, líkindaaðferðum og tölfræði. Umfjöllunin verður að hluta fræðileg með hagnýtum dæmum. Inn á milli gæti slæðst efni i í léttari dúr.
Ég lauk meistaraprófi í rafmagns- og tölvuverkfræði frá Háskóla Íslands og síðar námi í tryggingastærðfræði frá University of Wisconsin-Madison, School of Business í Madison, Wisconsin. Viðurkenning Iðnaðarráðuneytis sem verkfræðingur, veitt í október 2000. Viðurkenning Fjármálaeftirlits Seðlabanka Íslands til starfa sem tryggingastærðfræðingur, veitt í desember 2020.
Ábendingar um efnstök, málfar eða annað eru vel þegnar. Best er að senda póst á netfangið jon hjá actuary.is.
Jón Ævar Pálmason
jon@actuary.is